Endurreikningur gorma

Endurreikningur á jafnvægisgormum.

Algengt er að iðnaðarhurðir séu afgreiddar með jafnvægisgormum sem þola 15-25 þús. opnanir. Oft er það næg ending en við sumar aðstæður gefa slíkir gormar sig á einu ári. Ef maður er kallaður til í endurnýjun á gormum við slíkar aðstæður, er óráð að nýta ekki tækifærið til að setja upp efnismeiri gorma. Hægt er að margfalda endingu fyrir takmarkaðan auka kostnað – og þar með spara viðskiptavinum verulegar fjárhæðir.

Tökum fyrir raunverulegt dæmi og förum yfir endurreikninginn skref fyrir skref.

Húsfélag hafði samband vegna brotins jafnvægisgorms við bílskýlishurð og var einstaklingurinn hissa á stuttri endingu. Við skoðun kom í ljós að um var að ræða par af sínkhúðuðum 6mm x 50,8mm x 666mm (111 vafningar) gormum – Trekktir 8 hringi.

Takið eftir að þó að tveir gormar séu við hurðina, þá er nóg að nota aðeins annan þeirra til endurreiknings – svo framarlega sem að þeir séu báðir eins. Hér að neðan verður þessari aðferð beitt.

Með því að skoða gormatöflur frá t.d. Flexiforce er hægt að fá frekari upplýsingar um gorminn. Lítum á síðu 5 í skjalinu til að skoða eiginleika þessa gorms nánar (6,0 x 50,8mm).

Útskýringartafla fyrir jafnvægisgorma

Eins og sést í hausnum á myndinni hér við hlið er svokallaður gormafasti (e. spring constant) 6mm x 50,8mm galv. gorms 462.608Nmm. Aðeins neðar kemur fram að tala óvirkra vafninga, sem sitja á gormafestingum og nýtast ekki, er 5 stk á hverjum gormi. Okkar gormur er með 111 vafninga í heild, sem þýðir að hann hefur 111 – 5 = 106 virka vafninga. Með því að deila virkum vafningum í gormafastann, fáum við snúningskraft per trekktan hring: 462.608 / 106 = 4364Nmm. Ef við skoðun svo „Length mm“ dálkinn, sjáum við að næsta uppgefna lengd á lista er 670mm (upprunalegir gormar 666mm). Ekki alveg rétt, en nógu nákvæmt í þessu tilviki. Engu að síður er gott að hafa þessar skekkjur í huga og reyna að takmarka þær.

 

 

Útskýringartafla fyrir jafnvægisgorma

Ef við skoðum svo „Cycles“ dálkinn hægra megin á síðunni, sjáum við áætlaða endingu miðað við trekkingu. Eins og fram kom áður, eru gormarnir trekktir 8 hringi. Samkvæmt töflunni liggur endingin á milli 10 og 15 þús. opnana. Ef við deilum 15 þús. opnunum með dagafjölda árs, sjáum við að það þarf ekki mjög stórt bílskýli til að fara með eitt svona gormapar á ári. 15000 / 365 = 41 opnun á dag.

 

 

Þær upplýsingar sem við þurfum til að endurreikna gorma eru:

  • Snúningskraftur per hring – 4364Nmm
  • Trekktir hringir – 8 hringir
  • Hámarkslengd trekktra gorma (sirka mál úr gormafestingu í vírhjól mínus 150mm fyrir öxulkíla o.fl.) – segjum 1500mm í okkar tilviki.
  • Hámarksþvermál á gormum sem passa á gormafestingar / gormabrotsbremsur. 95,3mm gormar eru hámark í okkar tilviki.
  • Yfirborðsáferð nýju gormanna (svartir eða duftlakkaðir). Við veljum svarta.
  • Ásættanleg ending. Til að tryggja endingu út líftíma þessarar hurðar, þarf að 10 til 20-falda endingu.
  • Eru báðir / allir gormarnir eins? Í sumum tilvikum eru hurðir afgreiddar með ósamstæðum gormum – þó það sé erfitt að finna góða ástæðu fyrir því. Ef svo er, þarf að leggja saman snúningskraft beggja (allra) gorma og deila með fjölda þeirra til að fá töluna sem okkur vantar (þ.e.a.s. meðalsnúningskraft). Í okkar dæmi voru þeir eins.
  •  Þar að auki má hafa þyngd gorma í huga. T.d. hefur 1″ holur öxull takmarkaða burðargetu og sama getur verið með veggfestingar.

Nú fetum við okkur niður eftir skjalinu og höfum augun opin fyrir gormastærð í svörtu gormastáli sem gefur réttan kraft (4364Nmm) og er undir 1500mm að lengd. Við athugum svo hvort hin atriðin eru uppfyllt og höldum áfram ef svo er ekki.

Við gætum til dæmis staðnæmst á svörtum 7,0 x 66,7mm gormi. Taflan segir að gormur með 4400Nmm per hring sé 1090mm langur. Ending miðað við 8 hringi er komin út af töflunni en er eitthvað í námunda við 100 þús. opnanir. Nokkuð góð útfærsla en gott væri að ná enn betri endingu.

Á endanum skoðum við 7,5 x 95,3 mm svartan gorm. 1110mm gormur gefur okkur 4377Nmm. Þó endingin miðað við 8 hringi sé komin út af töflunni, getum við nokkurn veginn áætlað hana út frá stigningu töflunnar, og sagt að hann endist milli 150 og 200 þús. opnanir. Líklega verður hurðin ónýt áður en gormarnir gefa sig.

Munur á efniskostnaði upprunalegu gormanna og þeirra nýju er um þre- til fjórfaldur, en hann er fljótur að verða að engu í samanburði við vinnukostnað við árlega endurnýjun.